Kosningamótmæli eru að breytast í ættflokkastríð
28.1.2008 | 20:07
Af fréttum að dæma eru mótmælin vegna framkvæmdar forsetakosninga í Kenýa að þróast hægt og örugglega, í ættflokkaerjur, sjá grein í Guardian á slóðinni: http://www.guardian.co.uk/kenya/story/0,,2247863,00.html og ítarlegar lýsingar á slóðinni: http://www.guardian.co.uk/kenya/story/0,,2247561,00.html.
Tengiliður okkar, forstöðukona Little Bees, Lucy Odipo segist núna vera flóttamaður í eigin heimalandi, hún þurfi að leita á sérstakt verndarsvæði lögreglunnar til að sofa, því hún óttast að vera brennd inni, eins og hafa verið örlög margra í fátækrahverfunum, m.a. nokkurra barna sem sækja Little Bees. Lucy hefur misst aleigu sína, því öllu var rænt af heimili hennar og einnig úr Little Bees skólanum, mat, skrifborðum, teppum, sængurfötum o.s.frv. Þá er ferðum fólks settar verulegar skorður, þar sem hún segir glæpamenn sitja um fólk til að spyrja það af hvaða ættflokki það er og misþyrma þeim sem eru af röngum ættflokki. Henni hefur tvisvar sinnum tekist að senda mér tölvupóst frá því að þessi ósköð byrjuðu og hefur hún farið í lögreglufylgd. Fylgjendur forsetanna berja á hvor öðrum með kylfum, bogum og örvum og eira engu, ekki heldur saklausum borgurum sem vilja bara fá að lifa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt og nágranna. Ég læt fylgja þessu bloggi mynd af móður eins nemanda í Little Bees, sem varð fyrir barðinu á þessum skríl, hún var næstum barin til dauða, hlaut djúpa skurði á höfuð, öxl, annarri hendi og fótum.
Það er hræðilegt að hugsa til þess að litlu saklausu fósturbörnin okkar skuli búa við þessar aðstæður núna. Síðustu fréttir hvetja ekki til neinnar sérstakrar bjartsýni, þó ég sé fegin að Kofi Annan virðist ekki vera búin að gefast upp á "forsetunum tveimur", eins og Lucy kallar þá, strax.
Hér er hægt að hlusta á nýja frétt um ástandið í Kenýa: http://blogs.guardian.co.uk/podcasts/2008/01/killing_each_other_with_machet.html
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:32 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.