Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011
Fleiri slæmar fréttir úr Little Bees
21.4.2011 | 12:56
Eins og ég sagði ykkur í síðustu færslu, þá var hann Victor sem var yfirkennari/skólastjóri Little Bees skólans myrtur þann 15. janúar. Hann var í þjálfun og til stóð að hann tæki við rekstri samtakanna sem reka skólan, þegar Lucy okkar hætti. Þó Lucy myndi tæpast teljast öldruð á okkar slóðum, þá hefur hún nú engu að síður þegar náð meðalaldri fólks í Kenía sem er aðeins 48 ár og telst gömul kona á sínum heimaslóðum. Victor lætur eftir sig konu og tvö ung börn.
Ég hafði ekki heyrt í henni í langan tíma og var farin að undrast þögnina, því ég var búin að senda henni peninga fyrir áframhaldandi endurbótum á skólahúsnæðinu sem til stóð að framkvæma í mars, á meðan skólanum væri lokað. Í gær heyrði ég loksins frá henni. Það sem ég vissi ekki var að Victor var sonur Lucyar og eins og gefur að skilja þá tók hún fráfall hans afskaplega nærri sér. Hún sagðist hafa átt afar erfitt uppdráttar eftir dauða Victors, dauði hans hafi veikt hana bæði á líkama og sál og endaði sá sorgarferill með heilablóðfalli. Hún hefur ekki fulla stjórn á hægri fætinum og höndum og er því rúmföst.
Ég hef satt að segja aldrei heyrt okkar konu svona vondaufa. Hún er afskaplega trúuð og hefur alltaf sett allt sitt traust á Guð, en núna er jafnvel trúin veik. Hún biður ykkur engu að síður að biðja fyrir sér og bata sínum.
Eins og ég hef sagt ykkur áður, þá er heilbrigðisþjónustan í Kenía alveg rándýr og ekki á færi nema þeirra allra ríkustu að kaupa sér meðöl og endurhæfingu. Ég hef því skrifað Lucy og sagt henni að henni sé frjálst að nota það sem eftir var af peningunum sem ég sendi henni úr byggingasjóðnum (og kom af sölu jólakorta) til þess að greiða fyrir meðöl og endurhæfingu. Ég satt að segja veit ekki hvort hún var búin að ráðstafa hluta af þessum peningum, en tel held þó ekki. Peningarnir munu skila henni eitthvað áleiðis í endurhæfingunni, en trúlega mun hún þó þurfa meira áður en hún nær fullum bata.
Mig langar að biðja þau ykkar sem eruð á Facebook að fara inn á síðuna hennar: http://www.facebook.com/home.php#!/profile.php?id=1311185605 (Lucy Odipo) og senda henni einhver skilaboð sem eru til þess fallin að blása henni í brjóst gamla baráttuandanum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.4.2011 kl. 02:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)