Nýir stuðningsforeldrar
7.10.2011 | 18:43
Þrjú börn í viðbót hafa nú fengið stuðningsforeldra.
Katrín Ýr og Hilmar Þór ætla að styrkja Peter David Mguna, en hann er 10 ára snáði sem býr með fátækri móður sinni, en faðir Peter hvarf í róstrunum sem urðu í kringum kosningarnar 2008.
Hermann Jónsson styrkir Brendu Achieng. Brenda er 7 ára og býr hjá móður sinni sem er sjúklingur, en faðir hennar er látinn. Sjálfboðaliðar við Little Bees skólann sjá að mestu um Brendu.
Svava og Gunnar Darri ætla að styrkja Rósu Mwangangi., Rósa er 6 ára, bæði hún og foreldrar hennar eru HIV-jákvæðir.
Fréttir af Silviu Mwanikha
6.10.2011 | 16:53
Silvía Mwanikha fæddist fötluð á hendi. Fyrir skömmu var ástand hennar orðið þannig að læknar sögðu að ef hún gengist ekki strax undir aðgerð, yrði að taka af henni handlegginn, því höndin var byrjuð að rotna. Meðferð hennar verður í nokkrum áföngum. Búið er að skera einu sinni, taka bein úr baki og læri og bæta í handlegginn. Silva er nú á spítala með teina í handleggnum. Ef smellt er á hlekkina hér að neðan, má sjá myndir af henni á sjúkrahúsinu. Í öðrum áfanga verður gert við olnboga Silvíu og þegar hún hefur jafnað sig á því verða teinarnir teknir úr og gifsi sett á handlegginn.
Lucy, forstöðukona Little Bees, gerir ráð fyrir að það sem eftir stendur af læknismeðferð Silviu muni kosta um 240 þús. keníska shillinga. Miðað við hvernig gengið hefur verið upp á síðkastið þá gera það um 400 þús. kr. íslenskar. Okkur hefur tekist að safna 127 þúsund kr. sem þegar hafa verið sendir til Little Bees og höldum áfram að safna fyrir því sem eftir stendur.
Söfnunarreikningurinn er 137-26-4645, kt. 550109-0850.
Við viljum þakka Kristjáni S. Gunnlaugssyni, Hrafnhildi Gunnlaugsdóttur, Eydísi Mary Jónsdóttur, Ergo ehf. (Margréti Kristínu Sigurðardóttur og Börge Johannes Wigum), Kristínu Sævarsdóttur, Gunnellu Jónasdóttur, Jóni Hákoni Jónssyni og síðast en ekki síst styrktarforeldrum Silvíu á Íslandi, þeim Sigurði og Jóhönnu, innilega fyrir að styrkja Silvíu til betra lífs.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Silvía fékk langþráða aðgerð á hendi
26.9.2011 | 13:22
Hún Silvia Mwanikha er 11 ára og býr í fátækrahverfinu Madoya í útjaðri Nairobi í Kenía. Hún er búin að missa báða foreldra sína, en býr hjá forráðamanni við afar bág kjör. Silvía stundar Little Bees skólann og á stuðningsforeldra á Íslandi sem heita Sigurður og Jóhanna, en þau styðja hana og skólann með mánaðarlegum framlögum.
Silvía hefur verið fötluð á hendi frá fæðingu. Nú í september var ástand hennar orðið þannig að annað hvort myndi hún gangast undir aðgerð, eða þá að hendin yrði tekin af. Hún gekkst því undir stóra og flókna aðgerð og var 8 tíma á skurðarborðinu. Tekin voru bein úr baki og læri og bætt við höndina. Hún liggur nú á sjúkrahúsi með höndina kirfilega festa við magann á meðan allt grær. Hún þjáist talsvert þessi elskulega litla stúlka, því hún verður að liggja kyrr á hægri hliðinni, getur ekki gengið fyrr en lærið og bakið eru nægilega gróið. Það er þó góð von til þess að aðgerðin verði til þess að hún fái starfhæfan handlegg. Fyrir liggur að hún mun þurfa á annarri aðgerð að halda að ári liðnu.
Svo dásamlega vildi til að nýbúið var að senda 50 þúsund krónur til Little Bees, sem var afrakstur söfnunar sem Bjarni Hákonarson efndi til í tilefni af afmæli sínu (sjá hér: http://byflugur.blog.is/blog/byflugur/entry/1179240/) og mátti Lucy forstöðukona ráðstafa þeim að vild. Þessir peningar, ásamt dálítilli upphæð sem skólanum tókst að skrapa saman voru notaðir sem innborgun fyrir aðgerðina (60 þúsund kenískir shillingar). En duga þó ekki til, auk þess sem reikningar fyrir sjúkralegu munu bætast við. Í byggingasjóði Little Bees er til tæplega 60 þúsund krónur sem eru til komnar vegna stuðnings aðila sem hafa verið svo elskulegir að leggja skólanum lið með framlögum af og til (Kristín Sævarsdóttir, Guðrún Elín Jónasdóttir og Jón Hákon Jónsson), auk framlaga frá börnum sem haldið hafa tombólur til styrktar starfinu. Ákveðið hefur verið að senda þessa peninga nú þegar til Little Bees til þess að tryggja Silvíu áframhaldandi læknisaðstoð.
Trúlega mun þetta þó ekki duga til þannig að nú ætla ég að biðla til ykkar þarna úti sem eruð aflögufær með stórt eða smátt, safnast þegar saman kemur.
Sérstakur söfnunarreikningur fyrir læknismeðferð Silvíu er 137-26-004645, kt. 550109-0850.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.9.2011 kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kærar þakkir Bjarni Hákonarson
14.7.2011 | 14:38
Hann Bjarni frændi minn varð fimmtugur nú í júní. Hann afþakkaði gjafir og bað vini og ættingja um að láta frekar börnin í Little Bees njóta góðs af. Það gerðu þeir svo um munaði og nam upphæðin yfir 50 þúsund krónum.
Þessi sætu systkin tóku heldur betur á stóra sínum og fylltu heila krukku af peningum sem þau lögðu sjálf til í púkkið og söfnuðu frá gestum og gangandi
Kærar þakkir Bjarni fyrir þitt góða framlag!
Við setjum inn myndir og upplýsingar þegar búið er að ráðstafa peningunum í Little Bees.
Fréttir frá Little Bees
22.5.2011 | 14:07
Eins og ég sagði ykkur um daginn fékk Lucy heilablóðfall og hefur ekki verið rólfær að neinu ráði. Hún er í endurhæfingu og við bara bíðum og vonum að hún muni aftur ná fyrri kröftum.
Hún Linda, sem studd var til framhaldsnáms af Gígju Árnadóttur og sagt er frá hér: http://byflugur.blog.is/blog/byflugur/entry/1132282/, fór fyrir okkur í heimsókn til Little Bees til að kanna málin. Hún sagði okkur að Lucy væri enn mjög veik en öll verkefnin sem rekin eru á vegum sjálfshjálparsamtakanna gangi vel í fjarveru hennar, hún vinnur náið með sjálfboðaliðunum, skipar fyrir frá rúmstokknum, þannig að lífið og tilveran í skólanum hefur sinn vanagang, þó hún sé fjarri góðu gamni. Hún sjálf, auk tveggja kjarnakvenna sem eru lífið og sálin í starfinu í Kisumu munu vera í símasambandi við Lucy og veita henni móralskan stuðning.