Upplýsingar um Little Bees skólann

Lucy Odipo stofnandi skólans við hrörlegan húsakostinn

Í einu af fátækrahverfum Nairóbíborgar í Kenía er rekinn lítill skóli sem kallast Little Bees skólinn. Íbúar í þessu hverfi eru meðal þeirra allra fátækustu í heiminum og var skólinn  stofnaður af sjálfboðaliðum undir forystu Lucy Odipo árið 2001, til að reyna að bæta aðstæður minnstu og viðkvæmustu íbúa hverfisins. Þetta góðhjartaða fólk stofnaði samtök sem kallast „The Little Bees Children Self-Help group“ og reka nú skóla sem veitir um tvöhundruð börnum í hverfinu menntun, auk þess sem börnin fá eina máltíð á dag í skólanum.

Árið 2006 hófu íslensk hjálparsamtök, Vinir Kenía, að styðja við bakið á skólanum, með því að útvega stuðningsforeldra fyrir þau börn sem mest þurftu á hjálp að halda. Þegar myndir fóru að berast af aðstæðum barnanna í skólanum rann upp fyrir stuðningsforeldrunum við hversu hörmulegar aðstæður þessi börn lifðu.

Skólinn samanstóð af litlum bárujárnskofum með moldargólfum. Í sumum þeirra voru trébekkir og borð, í öðrum ekki neitt. Engin kennslugögn voru til staðar nema hveitisekkir sem kennararnir höfðu skrifað á og hengt upp á veggi, engar bækur og engin skriffæri. Stuðningsforeldrarnir höfðu því frumkvæði að því að stofna byggingarsjóð fyrir skólann og hefur nú þegar verið safnað fyrir byggingu tveggja hæða skólahúss, auk lítillar hliðarbyggingar sem hýsir börnin á leikskólaaldri. Börnin eru  ekki í litlum kofum með moldargólfum lengur, heldur í húsum með steinsteyptum gólfum, auk þess sem lítið bókasafn er við skólann. Þó mikið hafi unnist, er frágangi við þessar byggingar ekki lokið og enn eru kennslugögn mjög ófullnægjandi. Enn heldur því söfnun í byggingarsjóðinn áfram, til að gera umgjörð skólastarfsins betri, auk þess sem nýir stuðningsforeldrar eru ávallt velkomnir.

Börninn í Little Bees í einni skólastofunni

 Í dag eiga 60 börn í Little Bees skólanum íslenska stuðningsforeldra sem styðja þau með mánaðarlegu framlagi. Reynslan af starfinu sýnir okkur að stuðningurinn sem börnin fá er ekki eingöngu peningalegur, mikið af þessum börnum eru algerlega munaðarlaus eða eiga eitt foreldri sem er e.t.v. veikt og getur ekki séð barninu farborða og því veitir það barninu öryggiskennd og vellíðan að vita af einhverjum, einhvers staðar sem fylgist með og veitir skjól ef allt annað bregst. Börnin í Madoya eiga oftast litla von um að geta brotist undan fátæktinni sem þau eru fædd inn í, þau hljóta litla grunnmenntun og eiga næstum aldrei möguleika á menntun eftir grunnskóla, því framhaldsskólar eru of dýrir fyrir þá sem ekkert eiga. Nú þegar hafa þrjú af fósturbörnunum okkar hafið nám í framhaldsskóla og nokkur munu bætast við á hverju ári í framtíðinni. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband