Upplýsingar um "Little Bees" skólann (árið 2006)

Lucy Odipo stofnandi skólans við hrörlegan húsakostinnÍ einu af mörgum fátækrahverfum í nágrenni Nairóbí-borgar í Kenía er starfræktur lítill fátæklegur skóli að nafni Little Bees. Skólann sækja u.þ.b. 100 fátæk og munaðarlaus börn sem eru búsett í hverfinu. Það eru nokkrir góðhjartaðir aðilar í hverfinu sem hafa komið á fót þessu verkefni til samhjálpar undir forystu Lucy Odipo. Alls eru það um 10 sjálfboðaliðar úr hverfinu sem sjá um kennsluna og umönnun barnanna en nágrannar hjálpa stundum til. Skólinn er rekinn með smá styrk frá nágrönnum og velviljuðum einstaklingum auk þess sem hópurinn hefur tekið saman og byggt klósett- og sturtuaðstöðu (þá einu í hverfinu) og rukka notendur um 2 skildinga. Þessi klósettaðstaða er sú fyrsta og eina í hverfinu.

Auk þessarar fjáröflunar hafa undanfarin ár þrjár íslenskar konur stutt skólann og styrkja þar fjögur Marion með pakka frá íslensku stuðningsforeldrimunaðarlaus börn með mánaðarlegum greiðslum og gjöfum. Sólveig Jónasdóttir heimsótti skólann í Little Bees í byrjun nóvember síðast liðinn fyrir hönd þessara kvenna og var vel tekið á móti henni. Börnin sátu í kofunum undir bárujárninu við fátækleg borð og lærðu stafrófið og sum sungu. Börninn í Little Bees í einni skólastofunniKennslugögn voru af mjög skornum skammti, helst var notast við fátæklegar myndir og blöð sem kennarar virtust hafa útbúið sjálfir og hengt á bert bárujárnið. Í einum kofanum var lítil krítartafla en í öðrum vantaði allt, líka borð og stóla. Bækur og blýanta höfðu börnin ekki. Mjög mismunandi var hvernig börnin voru búin, einstaka barn var í skólabúningi og skóm, en flest þeirra mjög fátækleg og sum jafnvel skólaus í rigningunni og kuldanum sem var þennan dag. Mikið atvinnuleysi er í hverfinu og þó ekki þurfi að greiða skólagjald til að sækja ríkisgrunnskóla í Kenía er kostnaður við skólabúninga, bækur og fargjöld oft það sem kemur í veg fyrir að foreldrar geti sent börn sín í skóla. Fjöldi munaðarlausra barna fer enn vaxandi, aðallega af völdum alnæmis og því er algengt að ættingjar og nágrannar taki að sér munaðarlaus börn og ali upp með sínum eigin, þrátt fyrir þröngan kost.

Auk þess að fá kennslu í skólanum í Little Bees hafa sjálfboðaliðarnir skotið skjólshúsi yfir sum barnanna enda ekkert nema gatan sem beið þeirra. Í hús Lucyar sem er skammt frá skólanum má sjá herbergi með nokkrum kojum þar sem nokkur barnanna búa. Í skólanum er lögð áhersla á að kenna grunngreinar eins og lestur, ensku og reikning en einnig er kennd kristnifræðsla og þá er mikið sungið. Lucy segir okkur að mikil þörf sé einnig á kynfræðslu og fræðslu um getnaðarvarnir almennt, sérstaklega fyrir stúlkurnar sem séu oft illa varðar fyrir óvönduðum mönnum. Það er auðheyrt að Lucy þekkir aðstöðu þessara barna mjög vel, enda ólst hún sjálf upp án foreldra og á 9 börn auk þeirra barna sem hún tekur að sér í tengslum við skólann í Little Bees. Eins og meðfylgjandi myndirnar sýna er húsakostur skólans mjög þröngur og allt hverfið líkist fremur haug af ónýtum bárujárnsplötum en bústöðum fólks. Húsnæði skólans samanstendur af nokkrum bárujárnskofum og einu fátæklegu steinhúsi. Mjög þröngt er á milli húsanna og leiksvæði barnanna er mjög lítið. Einungis nokkrir fermetrar með einni gamalli rólu og rennibraut. Gólfið í bárujárnskofunum þar sem kennslan fer fram er moldargólf og flæðir inn þá þegar rignir. Draumur  Lucy er að stækka skólann með því að kaupa upp lítið svæði í nágrenninu og byggja þar nokkur samtengd steinhús sem halda vatni og vindi. Þeim stendur til boða að kaupa þrjá til fjóra ónýta bárujárnskofa og landið sem þeim tilheyrir og er kostnaðurinn við það á bilinu 200-300 þúsund. Að því loknu væri síðan hægt að rífa þá kofa sem þegar eru á svæði Little Bees og byggja hús sem hentuðu betur starfseminni. Þegar er til teikning af byggingum en fjárhagsáætlun vantar.

Íslenskir stuðningsforeldrar barnanna í Little Bees skólanum hafa nú opnað söfnunarreikning með það fyrir augum að safna fé til byggingar nýrra kennslustofa fyrir skólann.  Reikningurinn er vistaður í Landsbanka Íslands nr. 137-15-380813, kt. 550109-0850.

 


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband